Falleinkunn í leikfimi

Eftir Bryndísi Ísfold Hlöðversdóttur

Verði maður, kona eða barn var við að frjálshyggjan hafi farið langt fram úr heimildum ætti sá hinn sami að snarhemla og beita sérlegri félagshyggju á málið.

Enda hvað er samfélag án umhyggju manna á milli? 

Ríkið, og hlutverk þess, hefur verið skreytt niðrandi fánum frjálshyggjunnar í opinberri umræðu af stjórnarliðum síðustu árin. Tilgangur með sameiginlegum sjóðum vefst fyrir sumum þeirra og til eru frambjóðendur á lista íhaldsins sem myndu glaðir afnema nær allan skatt af öllu hefðu þeir völd til.

Tilefnið er jú að gera hinni margrómuðu frjálshyggju hátt undir höfði, þar sem lögmál frumskógarins er yfirfært á þá sköpun mannskepnunnar sem við köllum samfélag. Síðustu árin hefur íslenskt samfélag togast nær þeirri samfélagsgerð sem Bandaríkjamenn þekkja betur en aðrir. Auðurinn er þar mikill en valdinu ógurlega ójafnt skipt á milli þegnanna.  

Það er ,,bert á milli” í bandarísku samfélagi og þeir sem sitja aftast í vagninum eru þeir sem minnsta féð hafa. Uppbygging samfélagsins er ekki í forgangi, forganginn eiga þeir sem keyra hraðast og taka fram úr.
 

Sumum gæti fundist þetta spennandi kostur og til eftirbreytni. 

Á Íslandi má nú segja svipaða sögu um þá sem minnst mega sín, öryrkja og aldraða. Á sama tíma kitlar forsætisráðherra fjármálageirann undir iljarnar með tillögum um afnám skatts á fjármagnstekjur. Og hvort þeir hlæja.  

Á meðan tína ellilífeyrisþegar dósir úr ruslinu. 

Samtrygging er ekki ljótt orð. Það lýsir því hvernig við veitum hverju öðru það skjól sem verndar okkur ef eitthvað óvænt hentir okkur. 

Viðskiptalífið þarf heldur ekki að vera óvinur litla mannsins – ekki ef stjórnvöld veita því stöðugt eftirlit og aðhald því gamla góða sagan segir okkur að fjármagn, völd og frelsi eru vandmeðfarið tríó.  Hófleg skattheimta sem leggst á sanngjarnari hátt á bæði viðskiptalíf og einstaklinga, er erfið jafnvægisleikfimi.

Ríkisstjórn Íslands er ekki fimari en Solla stirða og fær falleinkunn í leikfimi – gott ef hún þarf ekki bara vottorð næstu fjögur árin.
 Sjaldan hafa einstaklingar verið eins skattpíndir og nú. Lágtekjufólk þó mest.  Þeim sem þykir vænt um samfélagið, veita því jafnframt aðhald.  

Ótakmarkað frelsi er eins og að láta barn ala sig upp sjálft og sitja svo uppi með óalandi og óferjandi (1) ungling.
 

Hver vill búa í samfélagi slíkra manna ? 

Bryndís Ísfold situr í mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar og leggur stund á viðskiptafræði við HÍ

1
  vera óalandi og óferjandi: vera ekki hæfur í mannlegu samfélagi (vegna afbrota, leiðinda eða annars)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Cactus er planta.

Cactus Buffsack (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 21:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband