Segðu það sem þér finnst - hátt!

eftir Evu Bjarnadóttur

Eitthvert hreyfiafl þykir mér vera hrokkið í gang aftur í þjóðfélaginu. Undanfarin misseri hefur ríkt óvenjulega mikill baráttuandi yfir landi og þjóð. Ekkert yfirgengilega mikill en þó mun meiri heldur en tíðkaðist fyrir aðeins nokkrum árum síðan. Þegar ég var menntaskólanemi kvörtuðu kennarar okkar, sem oftar en ekki voru af ’68 kynslóðinni, sáran undan skoðanaleysi okkar og almennu meðvitundarleysi.

Ég held að þar hafi ekki einungis verið um unglingaveiki að ræða heldur var þetta ástand í samfélaginu. Allir voru sáttir við sitt og enginn gagnrýndi samfélagskipanina, nema einhverjir sem þóttu vera róttækir og vitleysingar.

Davíð sá um málin fyrir okkur.

Í menntaskólanum birtist þetta í tískubylgju. Það þótti ekki kúl að hafa skoðanir. Ég hafði það á tilfinningunni að sama væri uppi á teningnum hjá fullorðna fólkinu.

Sofandaháttur almennings hafði ekki góð áhrif á lýðræði landsins. Lýðræði, ólíkt því sem margir halda, er nefnilega ekki stöðugt fyrirbæri. Það þótti orðið sjálfsagt að ráðamenn tækju einræðislegar ákvarðanir um okkar hagi, enda enginn sem mótmælti. Fyrirtæki, bankar og viðskipti almennt breyttust líka á þessu tímabili, en án þess að við hefðum nokkuð um það að segja. Hugtakið viðskiptaval er enn þann dag í dag ekki orðið þjált í munni Íslendinga.

Eftir langvarandi lognmollu fóru róttæku vitleysingarnir að gerast kræfari. Konur og karlar skáru í sameiningu upp herör gegn versnandi staðalímynd kvenna og stofnuðu Femínistafélag Íslands. Það þótti vera slæm hugmynd í fyrstu. Enginn mátti heyra á það minnst að eitthvað væri athugavert við súludansstaði, klámblöð í verslunum eða flóð auglýsinga og tónlistarmyndbanda með berrössuðum og berbrjósta konum í söluhlutverki. Femínistar trufluðu fólk í notalegu ástandi skoðana- og meðvitundarleysis.

Allt í einu þurfti fólk að taka afstöðu til mála.

Samhliða og í kjölfar þriðju byltingar femínista á Íslandi hefur margt fleira breyst til batnaðar, lýðræðinu í hag. Hægt en bítandi vaknar fólk af værum svefni og áttar sig á því að það ber ábyrgð á heilu landi. Það var víst ekki Davíð sem átti að sjá um málin, heldur voru það við öll. Náttúruverndarumræða síðasta árs varð hápunkturinn á þessari vitundarvakningu og það sem ég held að hafi bundið enda á meðvitundarleysi Íslendinga gagnvart sameiginlegri eign okkar allra – í bili að minnsta kosti.

Við berum sjálf ábyrgð á því að samfélag okkar sé mönnum bjóðandi. Við þurfum á ríkisstjórn að halda sem skilur  að hún situr í umboði landsmanna.

Oft hef ég rætt við fólk sem er í vandræðum með hvernig það getur beitt sér fyrir hagsmunum sínum og skoðunum. Félagsstarfssemi er ekki fyrir alla, en það sem virkar jafnvel betur en félagsstarf er að viðra skoðanir sínar við hvert tækifæri sem gefst. Umræða er af hinu góða hvort sem hún fer fram í þingsal eða heima við eldhúsborðið. Skoðun okkar og virkni í samfélaginu er nauðsynlegt lýðræðinu.

Eva Bjarnadóttir er BA í kynja- og stjórnmálafræði og þjónar nú til borðs á kaffihúsi í Kaupmannahöfn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Adda bloggar

samála

Adda bloggar, 13.2.2007 kl. 01:03

2 identicon

Næsta ríkisstjórn:

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsætisráðherra
Steingrímur J. Sigfússon utanríkisráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra
Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra
Þórunn Sveinbjarnardóttir samgönguráðherra
Þuríður Backman landbúnaðarráðherra
Össur Skarphéðinsson sjávarútvegsráðherra
Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra
Kristján L. Möller fjármálaráðherra
Ögmundur Jónasson menntamálaráðherra
Mörður Árnason iðnaðarráðherra
Atli Gíslason dómsmálaráðherra

Katrín Júlíusdóttir forseti Alþingis

Ágúst Ólafur Ágústsson formaður þingflokks Sf
Katrín Jakobsdóttir formaður þingflokks Vg

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 12:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband