Eru loforðin tómt píp?

eftir Rósu Þórðardóttur

Nú er runninn upp tími loforðanna hjá ráðherrunum okkar. Nokkrar vikur í kosningar og þá byrja þeir að útdeila milljónunum, og milljörðunum ef því er að skipta.

Eða það höldum við að minnsta kosti.

Fyrir hverjar kosningar er þetta gert og við smyrjum snittur og opnum freyðivín og skálum fyrir þessum örlátu ráðherrum okkar. Skál! - þrátt fyrir að við höfum mýmörg dæmi þess að ráðherraloforðin eru orðin tóm. Orð sem standast ekki nánari skoðun. Orð sem þýða ekkert að kosningunum liðnum. Nú hefur Sturla samgönguleysisráðherra undirritað viljayfirlýsingu um samgöngumiðstöð í Vatnsmýri. Bíðum nú við.

Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002 settust borgarstjóri Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og heilbrigðisráðherra Jón Kristjánsson niður og undirrituðu viljayfirlýsingu, ekki loforð, heldur viljayfirlýsingu um byggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða. Fjármálaráðherra, Geir Hilmar, rauk upp í fjölmiðlum þarna í maímánuði og sagði Jón ekki hafa neina heimild til þess að gera slíkt. Sagði hann orðrétt að milljörðum króna yrði ekki ávísað úr ríkissjóði nema með atbeina fjármálaráðherra og ríkisstjórnar, jafnvel þó að það væri fyrirvari um fjárveitingar í viljayfirlýsingunni.

Þetta var alveg rétt hjá honum, ráðherrar hafa ekkert vald til að lofa einu né neinu. Hvorki þá né nú. Þeir hafa ekkert fjárveitingarvald. Tilefni þessara orða Geirs er síst minna í dag en þá – munurinn er að þeir sem lofa i dag eru með honum í liði. Því þegir Geir þunnu hljóði. Og við smyrjum snittur.

Það er meginregla samkvæmt stjórnarskránni, að fjárveitingarvaldið er hjá Alþingi, sbr. 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar.

Þetta þýðir einfaldlega að þessi endalausu loforð ráðherranna verða að fara í gegnum Alþingi. Loforð núverandi ráðherra standa því og falla með næstu ríkisstjórn sem samþykkir þá eða hafnar loforðunum eftir því sem vindarnir blása. Eftir situr loforðsmóttakandinn með sárt ennið, og enn á eftir að vaska upp eftir partýið.

Árið 1996 féll dómur í Hæstarétti í máli loðdýrabónda eins gegn ríkinu. Hann vildi láta landbúnaðarráðherra þurfa að standa við gefin loforð um stuðning við sig, en tekist höfðu samningar um kaup ríkis á húsbyggingum sem notaðar voru undir þessa uppáhaldsiðju landans í þá daga. Dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að ráðherra væri laus allra mála, því að hann hefði hreint ekkert haft vald til að gera þennan samning.  Hann hafði ekkert vald til að deila út fjármunum þá frekar en nú. Fallist var á það að loðdýrabóndinn hefði mátti ætla að ráðherra hefði þarna umboð til verksins, en það vara skipti engu máli. Dómurinn komst að því einu að ráðherrann hefði verið skuldbundinn til að spyrja Alþingi hvort hann mætti standa við gerðan samning. Um það var loforðið í raun, "ég skal spyrja þingið"

Næst þegar ráðherrann kemur til okkar og lofar öllu fögru munum þá að hann á eftir að biðja um pening.

Rósa Þórðardóttir er húsfrú og bóndi á Suðurlandi og sérlega  umhugað um að fólk standi við orð sín.


mbl.is Viljayfirlýsing um byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

innlitskvitt

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 12:51

2 identicon

Hvað þá með nýlegan 19 milljarða samning landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og Bændasamtakanna um starfsskilyrði sauðfjárræktar? Samingurinn er undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis og gildir til 6 ára, frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2013. Halda þessir jólasveinar að þeir verði við völd hér til ársloka 2013?!

http://www.landbunadarraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/814

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 13:22

3 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Þú ættir nú að lauma þessum upplýsingum til þeirra ráðherranna. Bara svona svo þeir seú með þetta á hreinu núna næstu vikurnar fram að kosningunum. Hvað ætli þeir geri þegar þeir átta sig á að hringferðin til að fara hringinn og spreða út loforðunum er gegn lögum?

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 10.2.2007 kl. 15:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband