10.2.2007 | 00:16
Konur eru að breyta stjórnmálunum
eftir Rósu Erlingsdóttur
Það er nauðsynlegt lýðræðinu að konur gegni ábyrgðarstöðum í stjórnmálum. Styrkur Ingibjargar Sólrúnar sem stjórnmálamanns liggur meðal annars í þeirri staðreynd að hún er kona, kona sem hefur breytt ásýnd íslenskra stjórnmála. Að halda því fram að sú staðreynd geri lítið úr konum og dragi úr viðurkenningu kjósenda á hæfni þeirra sem einstaklinga einkennist af kvenfyrirlitningu sem hefur verið áberandi í stjórnmálaumræðu síðustu missera.
Án kvenna er ekkert lýðræði
Árið 1997 samþykktu Alþjóðasamtök þjóðþinga almenna stefnuyfirlýsingu um lýðræði, þar sem einn af hornsteinum þess er sagður þessi: Lýðræði verður ekki skapað á annan hátt en þann að karlmenn og konur vinni saman að málefnum samfélagsins á jafnréttisgrundvelli og auðgist að reynslu, með þekkingu á því sem kann að skilja kynin að.
Yfirlýsingin viðurkennir að kyn skiptir máli í stjórnmálum, að mismunandi reynsla og félagsmótun kynja valdi því að sýn karlmanna á stjórnmál er önnur en sýn kvenna. Hún bendir á að kynferði er ein þeirra félagslegu breytna sem hefur afgerandi áhrif á líf einstaklingsins.
Femíniskir stjórnspekingar allt frá John Stuart Mill til okkar tíma hafa bent á þessa staðreynd. Samkvæmt þeim hefur þátttaka kvenna í stjórnmálum táknræna þýðingu og með henni eru pólitískar stofnanir gerðar lögmætari og lýðræðið stöðugra. Jafnframt hefur verið bent á að þátttaka kvenna í stjórnmálum sé spurning um réttlæti, að það sé fjarstæðukennt og ósanngjarnt að karlar einoki ábyrgðarstöður í stjórnmálum.
Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem byggir á athafnafrelsi einstaklingsins hafnar hins vegar samfélagslegri þýðingu kynferðis og er þannig að upplagi andsnúin konum.
Jöfn þátttaka kynjanna í stjórnmálum og opinberu lífi þarf ekki endilega að þýða breytingu á stefnu, markmiðum eða framkvæmd stjórnmálanna. Hagsmunir kvenna komust hins vegar ekki á dagskrá stjórnmálanna fyrr en konur hófu afskipti af þeim. Þannig hefur það sýnt sig að þar sem konur koma að ákvarðanatöku verða áherslubreytingar í stjórnmálum, einkum ef konur eru meðvitaðar um samfélagslegt kynjamisrétti og ef þeim tekst að yfirvinna þær hindranir sem konur í stjórnmálum mæta.
Fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á að konur mæta margvíslegum hindrunum í stjórnmálum jafnvel eftir að þær hófu þátttöku. Þegar konur komast í fulltrúastöður hafa þær þurft að beygja sig undir ríkjandi hefðir, þær hafa þurft að fylgja karlkyns flokksbræðrum og málflutningi þeirra til að hasla sér völl innan kerfisins. Það er mikil áskorun að vilja breyta kynjasamsetningu í stjórnmálum því í því felst gagnrýni á það samfélag sem við búum í, samfélag sem kerfisbundið hefur skilið konur útundan og neitað að fjalla um hagsmunamál þeirra.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er dæmi um stjórnmálamann sem farið hefur óhefðbundnar leiðir. Hún var farsæll borgarstjóri í Reykjavík í 9 ár. Um það verður ekki deilt að miklar breytingar á sviði jafnréttismála áttu sér stað undir hennar stjórn í Reykjavík, gífurleg uppbygging í grunn- og leikskólum, stjórnkerfisbreytingar sem byggja á öguðum vinnubrögðum, áætlanagerð og skýrum,
gagnsæjum leikreglum.
Annað sem gerðist undir hennar stjórn er að konum í stjórnunarstöðum hjá borginni fjölgaði mjög.
Af slæðukonum og alvöru körlum
Umræðan um þátttöku kvenna í stjórnmálum einkennist oft af virðingarleysi gegn konum og það beinist að konum innan allra flokka. Það mátti til dæmis merkja af úrslitum prófkjöra í Sjálfstæðisflokknum fyrir síðustu alþingiskosningar og umræðunni í kjölfar þeirra. Slæmur hlutur kvenna þar var meðal annars skýrður sem svo að tími slæðukvenna væri liðinn og í flokknum væri fólk dæmt eftir verðleikum einstaklingsins en ekki kyni.
Femínistar spurðu á sama tíma í forundran: Ef kynferði skiptir ekki máli í stjórnmálum hvernig stendur þá á því að ungir og óreyndir karlkyns frambjóðendur unnu sigur á þeim mun reyndari konum? Slæður eða ekki slæður; konur eru í mínum huga jafningjar karla og eiga brýnt erindi stjórnmál m.a. vegna þess að þær eru konur.
Við það stöndum við enn í dag fjórum árum seinna.
ÁFRAM STELPUR !
Rósa Erlingsdóttir er stjórnmálafræðingur, blaðamaður og móðir. Hún er búsett í Kaupmannahöfn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.2.2007 kl. 18:00 | Facebook
Pæling dagsins
- Kvennaþing í Hveragerði 11.-12. apríl. Stjórnmálaumræður með femínískum jafnaðarkonum. Ball með ROKKSLÆÐUNNI um kvöldið. Ertu búin að skrá þig?
Nota bene
Bloggandi konur
Anna Kristjáns
Arndís Anna
Arndís Steinþórs
Ása Richards
Ásta R. Jóhannesdóttir
Björk Vilhelmsdóttir
Bryndís Ísfold
Edda Agnarsdóttir
Beta Ronalds
Erla Sigurðardóttir
Eva Bjarna
Guðríður Arnardóttir
Dagbjört Hákonard
Helga Vala
Ingibjörg Stefáns
Jóhanna
Katrín Anna
Katrín Júlíusdóttir
Lára Stefánsdóttir
Magga Stína
Oddný Sturludóttir
Ólína Þorvarðardóttir
Rósa Erlings
Sonja B Jónsdóttir
Steinunn Valdís
Svanfríður Jónasdóttir
Þorgerður Diðriks
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég hitti völvu Samfylkingarinnar og sýndi hún mér í kúluna.
Þar sá ég Ingjbjörgu Sólrúnu forsætisráðherra og Hillari Clinton forseta Bandaríkjanna á fundi í forsætirráðuneytinu við Lækjargötu og þær voru að tala um hvernig við gætum öll staðið saman í því að draga úr fátækt í heiminum. Megi þessi spá rætast.
Takk annars fyrir Trúnó
Kalli Matt
Karl V. Matthíasson, 10.2.2007 kl. 00:25
Gott hjá ykkur að stofna opinbert trúnó! Bara til hamingju með það. Ekki mikið trúnó samt sem áður ef okkur köllunum opið of mikið. Aldrei getað sætt mig við eiga að hlusta á konu eða konur einungis vegna þess að þær væru konur. Konur eru líka menn og eiga að eiga alla sömu möguleika og menn sem einnig eru menn eins og þær. Flokkadráttur eftir kynjum er slæm uppskrift. Við erum öll menn. Ingibjörg Sólrún er ekkert merkilegri en annað fólk bara af því að hún er kona. Hvað mynduð þið konur góðar segja ef við karlarnir tækjum upp á því að koma okkur á framfæri sem körlum og allir karlar ættu bara að kjósa karla bara af því að þeir væru karlar? Á semsagt að flokka fólk í pólitík eftir útbúnaði milli táa án nokkurrar annarar krítiskrar skoðunar? Pólitík snýst um fólk stefnur og skoðanir. Öll dýrin í skóginum vinir og allt það væri að sjálfsögðu það besta en alla tíð hefur þurft að berjast fyrir öllu og það hefur að sjálfsögðu verið drifkrafturinn í allri framþróun. Karlar í einu horni og konur í öðru er ekki gott mál en þeir sem koma auga á að samvinna beggja sé besta lausnin eiga framtíðina fyrir sér.
Halldor (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 01:04
Slæmt gengi kvenna í prófkjörum Sjálfstæðisflokknum er slæmt. Sýnu verra er gengi kvenna í prófkjörum allra flokka (nema Sjálfstæðisflokks, því hjá honum var ekkert prófkjör) í Norðvesturkjördæmi. Þrátt fyrir einvalalið kvenna sem bauð sig fram í prófkjörum, konur með mikla reynslu og margvíslega menntun og þekktar konur fyrir sín störf - í stuttu máli sagt, flottar konur, er staðan hjá okkur sú að karlar eru í efstu sætum allra lista.
Þegar ég horfi á frambjóðendur fyrir næstu Alþingiskosningar, karla og ekkert nema karla, spyr ég mig hvernig í ósköpunum einhver listinn ætti að höfða til mín. Af öllum öðrum kjördæmum ólöstuðum, situr mitt kjördæmi uppi með flesta karla af gamla skólanum. Ég skil ekki þá og þeir skilja ekki mig.
Kolgrima, 10.2.2007 kl. 02:38
Skelfing sem ég er orðinn þreyttur á tuðinu í þessum kellingum alltaf hreint.Það er ekki stundlegur friður fyrir endalausu jarmi um launamisrétti, kúgun og og almennt óréttlæti heimsins í garð kvenna. Íslenskra kvenna! Þvílíkur endemis þvættingur. Yfir hverju hafa íslenskar konur að kvarta? Það er svoleiðis hlaðið undir rassgatið á þessu hérna. Það eru krúsídúllubúðir og hárgreiðslustofur á hverju götuhorni, þær geta valið úr tískublöðum, sjónvarpssápum, fitubrennslunámskeiðum og fæðubótarefnum. Þær fá bæði að kjósa og keyra bíl. En nei. Íslenskar konur eru kúgaðar. Þeim finnst þær nefnilega ekki fá nógu vel borgað fyrir það sem þær kjósa að kalla sambærileg störf. Sumsé vinnuframlag þegar frá er talin aukavinnan sem þær ekki nenna að vinna - og að því gefnu að þær séu hvorki óléttar - né á túr.Þetta er bara rugl. Ef konur eru svona óánægðar með laun sín og kjör ættu þær bara að asnast til að skipta um vinnu, ekki satt? En nei, þær láta sko ekki bjóða sér hvað sem er. Þau fáu störf sem konur á annað borð hafa nennu til að stunda, altsvo þau störf þar sem þær komast auðveldlega úr til að fara í ræktina - og svo í maníkjúr, hafa þær nefnilega markvisst lagt undir sig með frekju og yfirgangi. Vinnuveitendur neyðast því til að tæla með gylliboðum í þessi sömu 'sambærilegu' störf karlmenn, sem á annað borð þola samvistirnar við andlitsspartslað, dragtklætt kvennagerið. Og nú rær þetta hyski öllum árum að því að komast í stjórnir fyrirtækja - finnst það bersýnilega hið eftirsóknarverðasta af öllu eftirsóknarverðu. Stjórnarseta! Annálaðasta letibykkjudjobb sem fyrirfinnst. Jafnvel hörðustu bissníssnaglar breytast við slíka setu á örskotsstundu í forherta kaffiþambara og kjaftatíkur. Vei viðskiptalífi íslensku ef bannsettar kellingarnar komast þangað inn brjóstfalskar og klaufpilsaðar með lattebolla sína og kjaftablöð.Svo eru þeir sem voga sér að andhæfa þessari óvinveittu yfirtöku kvensniftanna úthrópaðir karlrembufauskar og vændir um steingerða heilastarfsemi. Huh! Sér er nú hver remban. Ekki erum við vesalingarnir með sérstaka karlakirkju, karlréttindafélag Íslands, karlasögusafn eða moðerfokking Rannsóknastofu í karlafræðum! Það hefðu nú adeilis heyrst skrækir í horni ef við hefðum haldið Karlafund á Þingvöllum síðastliðið sumar. Karlafundur!? Hvað með uppvaskið? Ætlaðir þú ekki að þvo bílinn? Fékkstu ekki að hitta strákana í fyrrasumar?!---Annars eru einhverjar lopaklæddar rauðrófur að hvetja kynsystur sínar til að leggja niður störf næstkomandi mánudag. Bravó! segi ég nú bara. Vonandi verður það til frambúðar.
SJS (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 02:59
Svo mörg voru þau orð frá *sjs* he he
Halla B. þorkelsson (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 11:37
Góður pistill SJS
Örvar Þór Kristjánsson, 10.2.2007 kl. 18:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.