Jafnrétti kynjanna er mikilvægasta byggðamálið

eftir Svanfríði Jónasdóttur  

Það hefur lengi verið umhugsunarefni af hverju strákar í grunnskóla fá lægri einkunnir en stelpur. Einkum hefur þessi munur verið mikill í sjávarbyggðum og á þeim svæðum þar sem konur eru síður þátttakendur í pólitík eða ráðandi í atvinnulífi.

Einkum á þeim svæðum þar sem ,,gömlu” atvinnugreinarnar eru enn grundvöllur efnahagslífsins; sjávarútvegur á Íslandi, skógarhögg og námugröftur í grannlöndum. Allt kemur út á eitt. Umræðan og gildin eru karllæg, kröfur til strákanna aðrar en til stelpnanna og strákum gengur verr í skóla.
 
Í Jokkmokk í norður Svíþjóð höfðu menn veitt því athygli, rétt eins og menn hafa gert hér á landi, að einkunnir stráka voru til muna lakari en stelpnanna. Hópur vísindamanna við Uppsalaháskóla rannsakaði málið.
Niðurstaðan varð sú að vandinn lægi í karlmennskunni í samfélaginu. Strákunum í Jokkmokk fannst nóg að kunna að keyra skellinöðru og að veiða fisk. Og komust upp með það. Stelpurnar notuðu frítíma sinn i að læra til að mennta sig í burtu frá hinu fábreytta samfélagi sem býður strákum mun meira frjálsræði og tækifæri.


Við vitum líka að hluti skýringarinnar hér heima er að aðrar væntingar eru til stráka en stelpna; stelpnanna er gætt betur, þær búa við meiri aga. Strákunum leyfist fremur að þvælast úti og lifa ákveðnu áhættulífi. Það er ekki karlmannlegt í skilningi hins ,,gamla samfélags” að sitja heima og læra.

Það eru haldnar ráðstefnur til að pæla í því hvað sé hægt að gera til að strákunum líði betur í skólanum. Það er út af fyrir sig gott en málið er stærra. Hér er um samfélagsvanda að ræða. Það má nefnilega ekki gleymast að þó strákunum leiðist í skólanum þá ganga þeir út sem sigurvegarar og hinar prúðu stelpur yfirgefa skólann með, jú hærri einkunnir en líka mun lakari sjálfsmynd en strákarnir.
 
Við þurfum að rannsaka þetta betur á Íslandi. En við verðum líka að læra af rannsóknarniðurstöðum og nýta þær til að breyta. Jafnréttisstarf er sífelld vinna á meðan verið er að ná fram breytingum. Framtíð byggðanna úti um landið er undir því komin að takist að breyta þessum karllægu viðhorfum í samfélaginu þar sem strákarnir una sér en stelpurnar flýja í fjölmennið við fyrsta tækifæri eins og íslenskar rannsóknir hafa sýnt að gerist hér í stórum stíl.

Og ekkert samfélag fær þrifist án þess að bæði kynin eigi þar hlut að máli. Þetta er því mikilvægt byggðamál; kannski það mikilvægasta.

Svanfríði Jónasdóttur þarf vart að kynna en hún er bæjarstjóri Dalvíkinga um þessar mundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svanfríður, þetta er verulega góð pæling hjá þér. Ég get tekið undir margt. Ég er kannski ekki sammála að strákarnir gangi út sem sigurvegarar úr skólanum - en það er ljóst að samfélagsgerðin er karllæg. Síðan fagna ég þessari síðu - það er mikilvægt að rödd kvenna heyrist jafn skýr og tær og hér.

Grímur Atlason (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 00:18

2 Smámynd: Andrés.si

Svanfríður.   Sorg að segja að sonur min hefur ekki séð karlmann í hlutverki kennara í 5 ár. (það sam hefur verið í leikskólanum)  Allar voru sjálfsagt konur. Ekki bara það.  Hlutfall kennara í grúnskólanum þar sem sonur min ganga í  er 90%-10%. Konum í hag að vissu.  Að auki eru margir strákar heima hjá einstæð mömmu eingöngu, þar sem fram kemur að þeim langar að sleppa sem léttast.

 Það er ekki tilviljun að strákar eru oft með forgang hjá mæðrunum svo þeir nota þetta "öfur ást" líka í skóla göngu.

Andrés

Andrés.si, 9.2.2007 kl. 01:13

3 identicon

Þetta er hárrétt hjá Svanfríði. Það þarf að rannsaka þetta miklu betur og leita leiða fyrir stráka í skólakerfinu. Eins og Svanfríður bendir réttilega á koma strákar af landsbyggðinni verr út úr hinu hefðbundan námi og halda síður áfram eftir grunnskólann. Þetta hefur að mínu mati m.a. haft þau áhrif að menntunarastigið á landsbyggðinni hefur lækkað, sérstaklega þar sem sjávarútvegur er undirstaðan í atvinnulífinu. Þar er lítillar menntunar krafist og þangað sækja strákar sem ekki finna sér farveg í skóla. Stelpurnar halda frekar áfram námi og flytja í burtu þangað sem þær finna störf sem hæfir menntun þeirra. Fjarnámið hefur líkast til hægt á þessari þróun en ég er nokkuð viss um að mikill meirihluti fjarnema eru konur sem sækja mest í kennaramenntun (grunn- og leikskóla) og nám í umönnunar- og heilbrigðisstörfum. Það skilar sér síðan til baka út á landsbyggðina þannig að svo til öll slík störf eru unnin af konum líkt og Andrés bendir á hér að ofan og við vitum öll. Önnur afleiðing af þessari þróun er síðan sú að æ erfiðara er að fá þessi störf viðurkennd í launum (konur eru verr launaðar) og strákar sækja síður í nám vegna þess að þeir eru betur launaðir án menntunar sem hásetar um borð í skipi en háskólamenntaður kennari, svo dæmi sé tekið. Menntamál eru mikilvægasta byggðarmálð, á því er enginn vafi. Hvað ætla menn að gera í því?
Fín grein hjá þér Svanfríður!

Kv Björn Valur

Björn Valur (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 08:35

4 identicon

Það hefur verið stefna ríkisins leynt og ljóst að ráða sem flest menntafólk í  vinnu til sín. Hversu lengi ætlar ríkið að leyfa sér að skakka leikin. Skapandi gerfi þörf fyrir menntafólk, á meðan atvinnuvegir landsins líða mannekla.

Staðreyndin er sú að þjóðfélagið hefur ósköp litla þörf fyrir menntafólk í geirunum sem konur kjósa að fjölmenna, líkt og félagsráðgjöf, þroskaþjálfun o.s.fr.v. 

Það er staðreynd að konur hafi meiri einbeitingu en karlmenn, enda með minna heilabú. Þessvegna hafa þær löngum staðið sig betur í námi. Það er synd og skömm, og einungis til þess fallið að halda niðri komandi kynslóðum kvenna, að halda því endalaust fram að þær eigi að mennta sig og fara í þessi þarfalitlu störf. Konur eru jafnvíg í mörg, ef ekki flest, verkastörf, enda með aukinni tækjavæðingu, minni þörf á kröftum í kögglum.

Stelpur vakniði, og hættið að væla, þið eruð að gera ykkur meira gagn en ógagn. Ríkið er ekki fært eða bært til að skakka leikinn ykkur í hag. Það er eingungis fært að grafa skurðinn sem margar konur hjakkast því miður í dýpra.  Þegar samfélagið verður fátækara, eins og óumflyjanlegt er að það verði, þá missir allt þetta menntafólk, sem ríkið hefur fram að þessu ráðið, vinnuna. Hvar verður jafnréttið þá, konurnar komnar áftur á heimilið, allt vegna þess að þeim var ílla ráðið að mennta sig í vitleysu.

Jónína Jónsdóttir (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 08:52

5 identicon

Fín grein hjá þér Svanfríður. Í þessu sambandi vil ég minna á þá gríðarlega góðu stefnu í menntunarmálum sem komin er frá Margréti Pálu Ólafsdóttur, Hjallastefnuna. Í leikskólum og skólum sem starfa eftir Hjallastefnunni er meðal annars tekið á þeim muni sem er á milli kynjanna og hefur árangurinn verið gríðarlega góður. Ég tel að ef fleiri skólar, ekki síst skólar á landsbyggðinni, myndu tileinka sér Hjallastefnuna, myndi það hjálpa bæði strákum og stelpum í námi.

Mbk, Auður

Auður Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 10:01

6 identicon

Sæl Svanfríður og takk fyrir þetta innlegg.

Ég er sammála því sem þú segir hvað samfélagið og þátt þess varðar en ég vil taka undir það sem Helga Vala segir varðandi það að senda börnin í burtu til náms. Fólk sem býr við þær aðstæður að ekki er boðið uppá framhaldsnám í heimabyggð stendur frammi fyrir því að senda börnin sín annaðhvort í heimavist eða leiguvist á stærri stöðum. Þetta krefst þess að láta börnin sín í burtu 15 - 16 ára gömul og þau eru á þessu tímabili ennþá bara börn. Strákar eru oft alls ekki tilbúnir til þess að takast á við það sem bíður þeirra þegar þeir þurfa að búa einir og sjá um sig og sitt nám sjálfir án umsjónar foreldra. Ég held að stelpur hafi meiri þroska til þess. Ég ætla ekki að alhæfa um það hvort þær hafi uppeldislega og meðfædda hæfileika til þess, en eins og staðan er í dag held ég að þær hafi betri grunn til þess en drengir. Vegna þess að strákarnir eru ekki tilbúnir ákveða þeir oft að bíða með námið og daga þá uppi heima í sínu umhverfi. Ég sjálf þurfti að senda frá mér tvo stráka á sínum tíma. Þeir sem betur fer gátu tekist á við þetta en ég sé í dag margt sem betur mátti fara og hefði verið öðruvísi ef við foreldrarnir hefðum haft meiri hönd í bagga. Ég fagna því þeirri uppbyggingu sem á sér stað í framhaldsnámi með tilkomu  Framhaldsskólans á Snæfellsnesi og nýja Menntaskólans í Borgarnesi.

Með kveðju

Ása Björk Stefánsdóttir 

Ása Björk Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 9.2.2007 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband