Lágtekjuskatturinn og ríkisstjórnin

eftir Ingibjörgu Stefánsdóttur

Eins og alþjóð veit þá hefur ríkisstjórnin lækkað hátekjuskattinn – en hækkað lágtekjuskattinn. Á Íslandi er nefnilega lagður lágtekjuskattur á fólk sem hefur tekjur undir öllum eðlilegum framfærslumörkum.   Og þar eru konur í meirihluta.  

 Nýlega voru samþykkt lög sem munu hækka lágtekjuskattinn enn frekar. Það eru lögin um Ríkisútvarpið OHF.  Til allrar lukku var Jóhanna Sigurðardóttir á vaktinni eins og endranær. Hún benti á að nefskattur ríkisstjórnarinnar myndi aðeins leggjast á þá sem greiða tekjuskatt.

 Þeir sem lifa aðeins á fjármagnstekjum og greiða saklausan tíu prósent skatt, áttu að vera undanþegnir nefskattinum. Líklega skiptir nefskattur RÚV ósköp litlu máli fyrir þennan hóp. Hins vegar mun okkur hin muna um nefskattinn.  

Þetta benti Jóhanna á og nú er ríkisstjórnin að undirbúa frumvarp sem mun breyta þessu þannig að: ,,Nefskattur leggist á öll nef” eins og þetta var orðað í Ríkisútvarpinu. Þarna áttuðu menn sig allt í einu á því að það: “...samrýmist það ekki tilgangi skattalaga að hópar skattgreiðenda séu undanþegnir þessum gjöldum” (http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item143124/).  

 Nema hvað. Hefði það ekki átt að liggja ljóst fyrir frá upphafi?  En hver er tilgangur skattalaganna? Jú, að hið opinbera hafi nægar tekjur til þess að sinna verkefnum sem því er ætlað. En þetta er ekki svona einfalt.

  Nóbelsverðlaunin og hagfræðingurinn Joseph E. Stiglitz skilgreinir eiginleika góðs skattkerfis sem svo að það sé:   1. Gott fyrir hagkerfið og vinni t.d. ekki gegn því að fólk vilji vinna og leggja mikið á sig. 2. Einfalt að framkvæma, sveigjanlegt, þannig að hægt sé að breyta kerfinu í takt við þarfir efnahagslífsins. 3. Gegnsætt og ábyrgt þannig að ekki sé hægt að leggja á nýja skatta eða auka skattbyrði án samþykkis þings  4. Réttlátt. 

Nú er kannski hægt að deila um einhver þessarra skilyrða og önnur er erfitt að meta. En eitt er að víst að íslenska skattkerfið uppfyllir ekki tvö hin síðasttöldu. 

 Útfrá skilgreiningum Stiglitz má líta svo á að gróflega hafi verið brotið gegn þriðja skilyrðinu þegar persónuafslátturinn var ekki hækkaður í takt við verðbólgu. Það varð til þess að skattbyrði jókst hlutfallslega mest hjá fólki með lágar tekjur. 

 Það var aldrei kynnt og aldrei lagt fram sem stefna ríkisstjórnarinnar, það bara gerðist. Þannig var um leið brotið gegn fjórða skilyrðinu; því að skattkerfið sé réttlát. Skattkerfi þar sem skattbyrðin eykst á þá lægstlaunuðustu á meðan henni er létt á þá sem meira hafa, getur ekki verið réttlátt.

  Lágtekjuskattur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er nákvæmlega þetta; óréttlátur, óábyrgur og ósanngjarn. Hann er stærsta ástæða aukinnar stéttaskiptingar á Íslandi. Skattkerfið hefur ekki verið notað til tekjujöfnunar heldur þvert á móti til þess að auka bilið.  

Og auðvitað hefur það bitnað mest á konum sem enn glíma við allt of mikinn launamun.   Þessu þarf að breyta og þessu verður breytt. Þegar við höfum fengið nýja ríkisstjórn.

Ingibjörg er 39 ára verkefnisstjóri og bókaormur sem dreymir um alvöru vinstri stjórn á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband