Samfylkingarkonur skora á ríkisstjórnina að semja við ljósmæður

Kvennahreyfing Samfylkingarinnar lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri launadeilu sem upp er komin milli ríkisins og ljósmæðra.  Einnig lýsir Kvennahreyfingin yfir þungum áhyggjum af öryggi fæðandi kvenna og nýbura.

 

Laun ljósmæðra eru með því sem lægst gerist innan Bandalags háskólamanna þótt nám þeirra sé eitt það lengsta sem krafist er af ríkisstarfsmönnum.

Byrjunarlaun ljósmæðra eru til dæmis helmingi lægri en byrjunarlaun verkfræðinga með meistaragráðu.  Launakjör ljósmæðra eru til marks um að hvorki þarfir né störf kvenna séu metin að verðleikum.  Kvennahreyfing Samfylkingarinnar leggur áherslu á að störf ljósmæðra verði endurmetin miðað við þá miklu ábyrgð sem þær gegna.

 

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa þá stefnu að jafna óútskýrðan kynbundinn launamun hjá ríkinu. Semja þarf um kjör handa ljósmæðrum sem standast samanburð við sambærilegar karlastéttir. Það gæfi íslenskum konum von um að jafnréttismarkmið ríkisstjórnarinnar stæðust.

 

Stjórn kvennahreyfingar Samfylkingarinnar skorar á ríkisstjórnarflokkana að leiða kjaradeiluna til lykta og standa þannig við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um endurmat launa hefðbundinna kvennastétta.


Kvennaþing Samfylkingarinnar 11. - 12. apríl næstkomandi!

Skráning stendur yfir! Námskeið Kvennahreyfingarinnar í Pikknikk - Framtíðarkonur - sem haldið var fyrr í vetur fylltist á örfáum dögum og færri komust en vildu. Yfir hundrað konur skiptust á skoðunum og fræddust og skemmtu sér og nú á að endurtaka leikinn. 

Það er því vísast að skrá sig fljótt. Fyrstar koma, fyrstar fá! 

 

kvennahreyfing.pgf

Ársþing kvennahreyfingar Samfylkingarinnar 11. - 12. apríl 2008 

Föstudagur frá kl. 14-18

Setning
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar,
setur þingið og kynnir skýrslu stjórnar.

Hvernig fjölgum við konum í stjórnmálum og í framboði fyrir Samfylkinguna?
- Eru prófkjör „rétta leiðin“ til að velja fólk á lista?

- Gagnast fléttulistar konum?

- Á að notast við prófkjör, uppstillingu eða eitthvað annað?

Framsögumenn: Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir varaborgarfulltrúi, Kristrún
Heimisdóttir aðstoðarmaður utanríkisráðherra og Þórunn Sveinbjarnardóttir
umhverfisráðherra flytja framsögur.

Vinnuhópar
Mismunandi aðferðafræði, prófkjör, uppstilling, kvótar, fléttulistar, rætt
í vinnuhópum.

Kvöldverður á Hótel Örk hefst klukkan 20 og ræðukona kvöldsins er Guðrún
Ögmundsdóttir fyrrverandi alþingismaður.
 
Veislunni stýrir Oddný Sturludóttir borgarfulltrúi.

Hin margrómaða kvennahljómsveit Rokkslæðan kemur saman í tilefni
kvennaþingsins eftir nokkurt hlé og spilar fyrir dansi fram á rauða nótt. Hljómsveitin er leidd af Kiddu rokk og Kristínu Eysteins. Við lofum trylltum dansi!

Laugardagur

Sameiginlegur morgunverður og tilvalið er að enda góða samveru
Samfylkingarkvenna í gufu og sundi á Hótel Örk enda aðstaða hótelsins
gestum að kostnaðarlausu.

Skráningarfrestur er til 7. apríl. Fyrstar koma fyrstar fá!

Skráning fer fram á netfanginu samfylking@samfylking.is eða í síma 414 2200.

Nánari upplýsingar á vef Samfylkingarinnar: www.samfylkingin.is


Konur og loftslagsbreytingar - týndi hlekkurinn?

Þannig hljóðar yfirskrift fundar sem haldinn verður þann 27. mars.

Frummælendur eru ekkert slor;

Þórunn Sveinbjarnardóttir ráðherra og Katrín Júlíusdóttir þingkona.

Anna Pála Sverrisdóttir snillingur og formaður UJ og Helgi Hjörvar þingmaður.

Allir á fund! Og hann verður haldinn í höfuðstöðvum Samfó, Hallveigarstíg 1, klukkan 20.

Látið boðið ganga.

Nefndin.


Handvömm og gamaldags forgangsröðun

Það er kominn nýr meirihluti í Reykjavík. Fyrsti nefndarformaðurinn sem heyrist um er formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Guðfaðir nýja meirihlutans; Kjartan Magnússon, gegnir nú því embætti. Síst vil ég gera lítið úr mikilvægi Orkuveitunnar. Þau störf sem þar eru unnin eru auðvitað afar mikilvæg.

Það eru þó fleira mikilvægt en vatn og rafmagn. Það er ekki síður mikilvægt að hugsað sé um velferð barnanna okkar. Ekki síst þeirra barna sem búa við erfiðar og jafnvel óviðunandi aðstæður, t.d. á ofbeldis- eða óregluheimilum eða hafa lent á glapstigum. Þá getur þurft að grípa inn í með stuttum fyrirvara. Til þess höfum við Barnaverndarnefnd. Seta í slíkri nefnd er örugglega mjög erfið enda hefur komið í ljós að rangar ákvarðanir barnaverndarnefnda fortíðarinnar hafa haft ófyrirsjáanlegar og á stundum hræðilegar afleiðingar.

Nú kemur í ljós að sjálfstæðismenn skipuðu í embætti formanns Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, konu sem engan áhuga hefur á formennskunni og biðst undan þessari vegtyllu. Framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna segir hér hafa verið um handvömm að ræða. Skyldi þessi ,,handvömm" vera táknræn fyrir virðingarröð embættanna í huga sjálfstæðismanna? Virðingarröð sem setur efst vellaunaða formennsku í OR en neðst formennsku í Barnaverndarnefnd. Nefndinni þar sem rætt er um mál ,,óhreinu barnanna hennar Evu", þeirra sem er óþægilegt að hugsa um og hafa hvort sem er alltaf verið til tómra vandræða. Það er embættið sem verður útundan í kaplinum sem þurfti að láta ganga upp með svo miklum hraði að ekki gefst tóm til að staðfesta vilja allra þeirra sem útvaldir eru til að gegna formennsku.

En það skiptir kannski engu máli. Forgangsröðunin er önnur. Nýi meirihlutinn byrjaði á því að lækka fasteignaskatta, lækkun sem skilar meðalheimilum í mesta lagi nokkur þúsund krónum á ári. Það skiptir flesta litlu. Hitt skiptir máli að geta treyst á leikskóla fyrir börnin sín og að ekki þurfi að senda þau heim vegna skorts á starfsfólki.

Mér hugnast betur forgangsröð meirihlutans sem undir forystu Dags B. Eggertssonar hóf starf sitt á að samþykkja sérstaka fjárveitingu til að gera betur við þá sem sinna umönnunarstörfum á vegum borgarinnar. Sá sami meirihluti lauk starfi sínu á því að bjarga Kolaportinu. Stað sem fjöldi fólks sækir um hverja helgi en átti að fórna fyrir bílastæði.

Ef vinnubrögð í anda þessarar ,,handvammar" eru það sem koma skal í stjórn borgarinnar mun málefnaskráin koma að litlu haldi. Jafnvel þó hún sé í sautján punktum.

Þessi grein er eftir Ingibjörgu Stefánsdóttur og ritnefnd Trúnó sá sig knúna til að birta hana. Takk Ingibjörg.


Uppskrift að prinsessu

Eftir Sigrúnu Jónsdóttur.

Svona eiga prinsessur að vera – heitir bók sem JPV auglýsti í dagblaðinu 24 stundum föstudaginn 9. nóvember sl. og hvílík auglýsing. Mér varð um og ó – er ekki allt í lagi hjá þeim? Hvaða ár hefur komið upp á dagatalinu hjá þessu annars ágæta fyrirtæki. Í kynningartexta um bókina segir m.a. að Petra prinsessa muni með aðstoð Prinsessufélagsins kenna ungum stúlkum “allt sem þær þurfa að vita til að verða prinsessur, til dæmis hvernig eigi að vera falleg og hvernig best sé að ná góðu sambandi við álfkonuna góðu, takast á við álög, finna draumaprinsinn og stjórna ríkinu vel og viturlega.” Er þetta ekki alveg með ólíkindum að þessi skilaboð skuli vera gefin út í bók í dag og dregin fram í blaðaauglýsingu? Verið er að auglýsa aðra bók í sömu auglýsingu og hún heitir “Sjóræningjar” um hana lykur blár litur þar er textinn hlutlausari og allt annað orðalag notað. Prinsessubókin er umlukin bleikum lit og að sjálfsögðu er kóróna framan á bókinni. Það eru öll tákn og skilaboð á sínum stað, stelpur verið fallegar og ef þið eruð ekki nógu fallegar þá er hægt að hjálpa ykkur til þess svo þið getið nú fundið draumaprinsinn. Orð duga vart til að lýsa undrun og reiði sem helltist yfir undirritaða við lestur á þessari auglýsingu. Var að vona og hélt reyndar að svona skilaboð til ungra stúkna heyrðu fortíðinni til og að barátta kvenna til margra ára hefðu raunverulega breytt hugsunarhætti þannig að við myndum ekki sjá svona auglýsingu árið 2007.


Sigrún hefur verið virk í jafnréttisumræðunni í mörg herrans ár...


Þær eru mættar!

eftir Helgu Völu Helgadóttur

Það er sorglegt frá því að segja að maður fagni því árið 2007 að sjá konur í meirihluta í formennsku í ráðum borgarinnar, en það er nú samt staðreynd.

Í fyrsta sinn í sögu borgarinnar eru konur í meirihluta í formennsku á þessum póstum. En þetta á auðvitað að vera hinn eðlilegasti hlutur, rétt eins og að karlar séu stundum í meirihluta. En það er hins vegar staðreynd að þetta er í fyrsta sinn. Fyrsta sinn sem konur eru í meirihluta. Og það skiptir máli. Mér er nokk sama þó að nú hrúgist inn einhverjir sem segi að konur séu líka menn og það séu verðleikar einstaklingsins og hæfileikar sem skipti máli. Oft er það bara ekki það sem er látið ráða för, heldur einmitt hitt, að viðkomandi er karl. Stundum eru þar á ferð sá hæfasti, en langt í frá alltaf eða næstum alltaf eins og virðist vera við kjör stjórnarformanna og skipun í stöður.

En, nú hætta að bölva í bili og heldur fagnað.

Hér er listi formannana.

Fyrsta skal nefna forseta borgarstjórnar, Margréti Sverrisdóttur.

Formaður hins sameinaða borgarstjórnarflokks og staðgengill borgarstjóra er Svandís Svavarsdóttir.

Formaður velferðarráðs er Björk Vilhelmsdóttir

Formaður menntaráðs er Oddný Sturludóttir

Formaður skipulagsráðs er Svandís Svavarsdóttir

Formaður leikskólaráðs er Sigrún Elsa Smáradóttir

Formaður menningar og ferðamálaráðs er Margrét Sverrisdóttir

og formaður mannréttindanefndar er Sóley Tómasdóttir

Að auki er greinilegt að meirihlutinn sem nú er kominn til starfa ætlar sér að taka mannekluna í umönnunarstörfum borgarinnar föstum tökum. Það er kominn tími til að þetta verði að algjöru forgangsverkefni, enda ófremdarástand víða um borgina.

Það gustar ferskum vindi um Ráðhús Reykjavíkur. Félagshyggjustjórnin er svo sannarlega komin til starfa og við bíðum spennt.


Helga Vala er búsett í Bolungarvík en fylgist engu að síður spennt með því sem gerist í pólitíkinni í borginni, enda Reykjavík höfuðborg allra landsmanna.


Löggæsla og leikskólar

Eftir Oddnýju Sturludóttur.

Það er ánægjulegt að sjá að umræða síðastliðinna vikna um sýnilega löggæslu og þá tifandi tímasprengju sem kjör lögreglumanna er, hefur opnað augu ráðamanna þjóðarinnar. Dómsmálaráðherra hefur samþykkt að greiða lögregluþjónum álagsgreiðslur vegna manneklu í þeirra röðum. Hjá Reykjavíkurborg hafa álagsgreiðslur til starfsfólks leik- og grunnskóla verið í brennidepli. Manneklan á leikskólum borgarinnar er mikil, meiri en hún hefur nokkurn tímann verið. Samþykkt hefur verið að greiða starfsfólki leikskóla, sem býr við aukið álag vegna manneklu, sérstakar greiðslur. Enn hefur starfsfólk leikskóla ekki fundið fyrir þeim í buddum sínum.

Verkefnið blasir þó við. Álag á starfsfólk leikskóla er mikið. Manneklan meiri en nokkurn tímann áður. Búið er að samþykkja álagsgreiðslurnar en þær hiksta og hökta í launakerfi borgarinnar, borgarstjóri skilar auðu en talar um ,,óásættanlegt ástand í miðborginni um nætur”. Hið óásættanlega ástand ríkir á leikskólum borgarinnar, undir það taka foreldrar og starfsfólk leikskóla. Álagsgreiðslur fyrir lögregluþjóna komu fljótt og örugglega, um leið og búið var að taka ákvörðunina.

Löggur og leikskólastarfsfólk. Leyfist konu að spyrja hvort kyn skipti hér máli? Hvor stéttin ætli flokkist sem kvennastétt?

Oddný frétti í dag að enn einn frábær starfsmaður á leikskóla barnanna hennar hefur sagt upp - og í næstu viku verður að skerða opnunartímann vegna manneklu. Margrét María litla er tveggja ára og hefur nú þegar kvatt eina yndislega konu sem starfaði á deildinni - og um áramótin kveður ein ómetanleg í viðbót. Þetta er ósegjanlega grátlegt.


Konur í bankaráð Seðlabankans

Ritnefnd Trúnó fagnar kjöri Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, hagfræðings, í bankaráð Seðlabankans. Ekki síðri er varamaður hennar, Guðný Hrund Karlsdóttir. Áfram stelpur.
mbl.is Sigríður Ingibjörg kjörin í bankaráð Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grátið á Grænuborg

Eftir Oddnýju Sturludóttur

Það var í ágústlok sem ég sótti börnin mín tvö á Grænuborg. Þau voru sólbökuð og sæl inni í stórasal að leika sér, veðrið hafði leikið við Reykvíkinga þennan dag sem og aðra daga í sumar og stutt í brosið hjá börnum og starfsfólki. Ég settist niður hjá starfsfólkinu og fylgdist með krökkunum leika sér, tímdi varla að fara með þau heim – svo vel leið þeim í leikskólanum. Eitt foreldri af öðru kom að sækja sitt barn og ég fór að tygja mín börn til heimferðar.
 
En skyndilega barst snökt mér til eyrna, ég leit í kringum mig en sá ekkert barn gráta. Snöktið færðist nær og þá kom í ljós að ein mamman var skælandi. Dóttir hennar hljóp í fangið á henni, sex ára myndarleg stelpa sem var að hefja skólagönguna í Austurbæjarskóla. Þetta var síðasti dagurinn hennar á Grænuborg. Mamman hafði farið um allar deildir leikskólans að kveðja starfsfólkið og nú var komið að því að klæða dótturina í síðasta sinn, kveðja öryggi leikskólans í hinsta sinn.
 
Hvað er ég að misskilja?
 
Dóttirin var spennt að byrja í skóla og mig grunar að hún hafi verið dálítið vandræðaleg yfir tilfinningaseminni í mömmu sinni sem var algjörlega óhuggandi. Hún faðmaði starfsfólkið að sér og þakkaði fyrir allar góðu stundirnar, öryggið, alúðina og væntumþykjuna. Hún lýsti því með ekkasogum hversu vel dóttur hennar hefði liðið á Grænuborg, hversu stórkostlegt starfið væri, hversu dásamlegt starfsfólkið væri. Ekki leið á löngu þar til tárin voru farin að renna niður flestar fullorðnar kinnar í salnum og mig var farið að kvíða hressilega fyrir því að kveðja leikskólann þegar sá elsti hæfi grunnskólagöngu.
 
,,Þú verður bara að skella í annað barn, manneskja”, sagði einn leikskólakennarinn við hina grátandi og þakklátu móður. Hún tók ekki illa í það, sagðist raunar vera að falla á tíma en hvað gerir kona ekki fyrir fleiri góðar stundir á Grænuborg?
 
Á leiðinni heim var ég hugsi. Hversu margar starfsstéttir ætli búi við það að ,,viðskiptavinirnir” kveðji þær með táraflóði? Djúpu þakklæti og trega? Af hverju flykkist fólk ekki til starfa á leikskólum, af hverju er ekki slegist um hvert gefandi og þakklátt starf sem losnar? Af hverju eiga leikskólarnir í basli með að halda starfinu gangandi vegna manneklu? Hvað er ég að misskilja hér?
 
Allt er hægt að mæla...

 
Í flestöllum starfsstéttum eru mælanleg markmið, árangur, prósentur, einkunnir, krónutölur, viðmið og ávöxtun. Ýmsar breytur til að meta og mæla verðmæti.
 
En hvernig mælum við gleði, vellíðan og hamingju? Hvernig mælum við árangur leikskólastarfs? Við mælum hann meðal annars í ánægju foreldra, gleðitárum þeirra þegar leiðir skiljast. Við mælum hann í hlátrasköllum barnanna, tilhlökkun, litlum og stórum listaverkum sem verða til í listasmiðjum, leikjum, söngvum og sögum sem þau læra innan veggja leikskólans. Við mælum hann í tengslum, vináttuböndum og væntumþykju milli barna og starfsfólks.
 
Gefum okkur tíma, látum í okkur heyra

 
Stundum heyri ég að foreldrar séu svo mikið að flýta sér að þeir gefi sér varla tíma til að kasta kveðju á starfsfólkið, ég er varla saklaus af því frekar en aðrir. Ég legg til að allir foreldrar leikskólabarna setji sér það markmið að hrósa starfsfólkinu minnst einu sinni í viku. Segjum þeim að þau séu frábær, að börnunum okkar líði vel, að starfið sé skapandi og skemmtilegt. Látum þau finna að starf þeirra sé verðmætt . Ég efast ekki um að við foreldrar erum gríðarlega sterkur þrýstihópur til að knýja á um að þessi mikilvægu störf verði metin að verðleikum. Látum í okkur heyra, breytum viðhorfum, sýnum þakklæti okkar í verki.
 
Mannauðurinn í starfsfólki leikskólanna er ómælanlegur – en ómetanlegur. Tvennt er þó hægt að mæla, tvennt sem er miður gott og lýsir alls ekki viðurkenningu samfélagsins á mikilvægi velferðar barna. Þetta tvennt er skortur á starfsfólki og lág laun. Verðmætamat samfélagsins verður að breytast, það er skömm að því að bjóða fólki hærri laun fyrir að gæta fjár í banka – heldur en barna í leikskóla.
 
Eða þekkið þið einhvern sem kveður gjaldkerann sinn með ekkasogum?

Oddný er borgarfulltrúi. Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 2. október 2007


Næsta síða »

Höfundar

Trúnó
Trúnó
Trúnó er vettvangur kvenna sem aðhyllast femíníska jafnaðarstefnu

Tónlistarspilari

Brigitte Bardot - Ca pourrait changer

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband